Frá Tinnu Rós Steinsdóttur, forstöðukonu í 3.flokki Kaldársels:
Þá er þriðji dagurinn okkar hér í Kaldárseli vel á veg kominn.
Netið er aðeins búið að vera að stríða okkur, svo það hefur ekki gengið alveg nógu vel að koma inn fréttum og myndum, en vonum að þetta verði auðveldara héðan af.
Strákarnir eru búnir að vera hinir hressustu og er búið að vera mikið stuð og stemning í hópnum frá komu. Eftir að hafa farið í kynningargöngu um svæðið á mánudaginn og gætt sér á BBQ-kjúklingalærum í hádegismatinn, klæddu þeir sig upp og fóru í göngutúr í Kúadal þar sem þeir fóru í leiki. Þegar til baka var komið settust þeir beint inn í kaffitíma þar sem var boðið upp á nýbakað bananabrauð og súkkulaðiköku, en hvort tveggja sló alveg í gegn. Eftir kaffitíma tók við frjáls tími þar sem strákarnir undu sér vel í leik og smíðavöllurinn var þétt skipaður – það kæmi mér ekki á óvart ef við værum með einn eða tvo verðandi smiði hér á meðal okkar.
Áður en við slógum upp kvöldvöku settumst við niður og fengum okkur blómkálssúpu og bollur og var vel borðað af því. Á kvöldvökunni sáu Óli Jón og Siggi Jón foringjar um að halda uppi stuði með gítar í hönd og ýmsu sprelli auk þess sem eitt borðið, skipað þeim Óskari, Kristófer, Flóka, Sindra, Arnaldi og Aroni sýndu okkur leikritið „Nýi sófinn“. Strákarnir skemmtu sér ljómandi vel og héldu mjög góðri kyrrð í lok kvöldvökunnar á meðan Óli Jón sagði þeim söguna af Mörtu og Maríu.
Eftir kvöldvöku var komið niður og fengið sér smá ávaxtabita áður en allar tennur voru burstaðar og lagst var til hvílu um klukkan 22:00. Flestir sofnuðu fljótlega eftir langan dag, en þeir allra síðustu voru að detta inní draumaheim vel fyrir miðnætti. Í gærmorgun þurftu foringjar ekkert að hafa fyrir því að vekja drengina þar sem allir voru komnir á fætur fyrir vakningu, enda enginn kominn í sumarbúðir til að sofa.
Við fengum nýbakað brauð, Cheerios, Kornflex og hafragraut í morgunmat, skelltum okkur svo út og drógum íslenska fánann að húni áður en við héldum morgunstund. Á morgunstundinni tókum við létta morgunleikfimi til að ná stirðleikanum úr líkamanum, sungum saman nokkur lög og fræddumst aðeins um Biblíuna, hvað hún er og hvernig á að nota hana. Strákarnir lærðu að fletta upp í Biblíunni og eftir stundina var þeim skipt niður í hópa þar sem þeir fengu að æfa sig í að finna vers.
Eftir morgunstundina fengu þeir smá tíma til að leika lausum hala áður en kom að hádegismat, plokkfisk og rúgbrauði. Strax eftir hádegismat var svo hafist handa við að klæða alla í útiföt og pakka í bakpoka því stefnan var sett á að labba upp á Helgafell. Strákarnir voru nú misvissir um hversu mikil alvara okkur var þegar við sýndum þeim í hvað stefndi, en allir komust þeir upp á topp – og niður aftur – án þess að við þyrftum að nota svo mikið sem einn plástur!! Það lá mikið og verðskuldað mont yfir hópnum þegar þeir horfðu niður af toppnum, og ekkert minna þegar heim var komið og þeir horfðu á afraksturinn.
Við gæddum okkur á döðlubrauði og kanillengjum uppi á toppnum, og allir skrifuðu nafnið sitt í gestabókina áður en við héldum niður aftur. Við heimkomu var ákveðið að blása upp hoppukastalann, og þar eyddu þeir síðustu orkudropunum sem þeir áttu til í sér. Þeir náðu þó að halda sér vakandi meðan þeir borðuðu grænt „agúrku“skyr og pizzasnúða í kvöldmat, og yfir kvöldvökuna þar sem Breki og Jóhann Valur sýndu leikritið „Jón stóri“ og við sungum og sprelluðum undir stjórn Óla Jóns og Sigga Jóns. Undirrituð var svo með hugleiðingu þar sem ég sagði þeim frá því hvernig Guð getur tekið okkur og notað í eitthvað stórkostlegt og hvernig Guð getur notað hæfileika sem okkur finnst kannski litlir og ómerkilegir og gert eitthvað magnað úr þeim. Kyrrðin var frábær, sem ég vona að hafi verið vegna þess að þeir voru að hlusta frekar en að þeir væru bara allir sofandi með opin augun.
Þeir voru burstaðir og komnir upp í rúm um klukkan 21:30, og síðustu augu að lokast fyrir klukkan 22:30.
Í morgun spruttu þeir á fætur líkt og fyrri daginn og augljóslega spenntir fyrir að sjá hvað dagurinn kemur til með að bera í skauti sér. Við héldum morgunstund í morgun þar sem við ræddum aðeins um Jesú og lærisveina hans, og svo var ákveðið að loka húsinu og senda alla út að leika sér í góða veðrinu, en hér er glampandi sólskin og yndislegt veður. Einhverjir eru í hoppukastalanum, einhverjir fóru að leita að villikettinum sem sást á stjá hér í gær, og ef marka má hamarshöggin sem berast hingað inní herbergi til mín að þá er smíðavöllurinn ekkert minna vinsæll en í gær.
Kveðja úr sólinni og stuðinu í Kaldárseli,
Tinna Rós..
Ps. það eru komnar inn myndir frá síðustu 2 dögum sem ég hvet ykkur eindregið til að fletta í gegnum. slóðin er hér:
http://www.kfum.is/nc/myndir/?g2_itemId=132986