Úr Ævintýraflokknum er allt gott að frétta og á hverjum degi er boðið upp á eitthvað nýtt og spennandi. Í dag var farið í hellaskoðun eftir hádegið og í þeim voru faldir 25 boltar sem að krakkarnir gátu leitað að. Krakkarnir voru með eindæmum fundvís þar sem að allir 25 boltarnir skiluðu sér til baka og það á met tíma. Eftir kaffitímann var svo brugðið á leik og farið í "battle" eða orustu eins hann myndi nefnast á íslensku. Þetta er splunkunýr og skemmtilegur leikur sem að verið er að prufa hérna í Kaldárseli. Leikur þessi hefur allt það sem að príða má góðan leik og í honum er meðal annars föndrað, mikill hasar, spenna og gleði. Hann er því tilvalin fyrir ævintýraflokk og gekk framkvæmd leiksins vonum framar og krakkarnir léku á alls oddi. Kvöldvakan var heldur ekki af verri endanum en hún spannaði fjörug lög, hreyfisöngva, leiki og leikrit og hugvekju þar sem að allir skemmtu sér og áttu góða stund. Í enda dags var svo haldið náttfatapartý þar sem að allir komu með sængina sína og koddann og horfðu saman á góða mynd og höfðu það huggulegt eftir ærslafullan dag. Foringjarnir komu þar færandi hendi með poppkorn, djús og ávexti sem krakkarnir þáðu með þökkum enda bráðnauðsynlegt að hafa eitthvað að narta í yfir góðri mynd.
Á morgun verður svo sérstök hátíðardagskrá í tilefni þjóðhátíðardagsins og þá verður öllu til tjaldað.
Forstöðumaður þakkar fyrir sig í bili,
Kær kveðja Arnar Ragnarsson