Þó fátt minni á sumarið skorti ekkert á viðbrögð fólks í gær þegar skráning hófst í sumarbúðir og á leikjanámskeið KFUM og KFUK. Skráning hófst kl. 18.00 og þremur tímum síðar höfðu rúmlega 600 börn skráð sig til þátttöku fyrir sumarið. Þetta eru enn betri viðtökur en fyrir ári og er ánægjulegt að sjá og upplifa þann mikla fjölda sem ætlar að tryggja sér pláss um leið og það er í boði. Í sumar býður KFUM og KFUK uppá yfir fimmtíu flokka fyrir börn og fjölskyldur og því yfir 3000 pláss í boði í fimm sumarbúðum og á leikjanámskeiðum í Kópavogi og Reykjanesbæ. Þrátt fyrir þetta mikla framboð eru vinsælustu flokkarnir fljótir að fyllast og því ekki eftir neinu að bíða með að ganga frá skráningu. Til að auðvelda fólki skráningu hefur félagið nú innleitt greiðsludreifingu sem er í boði hvort sem skráð er á netinu eða í þjónustumiðstöðinni á Holtavegi. Allar frekari upplýsingar um flokka sumarsins má finna á heimasíðu félagsins www.kfum.is eða á skráningarsíðunni www.sumarfjor.is.