Það er búið að vera mikið stuð hjá okkur í Kaldárseli í vikunni. Við erum búin að syngja, ganga, skoða hella, fara í fjallgöngu og halda upp á 17. júní saman. Já við vorum svo heppin að fá að vera í Kaldárseli á 17. júní enda eins gott því stelpurnar okkar björguðu íslenska þjóðhátíðardeginum frá vondu norninni sem ætlaði að stela 17. júní og hafa bara 16. og 18 júní.
Stelpurnar okkar eru búnar að vera kátar og glaðar en internetið okkar hefur hins vegar verið í verkfalli (sjálfsagt í stuðningsverkfalli með samningslausum stéttum :)) og því hafa fréttir ekki borist fyrr en nú.
Við höfum fengið ágætis veður og eins og sannir Íslendingar ekki látið smá dropa koma í veg fyrir holla, góða og umfram allt skemmtilega útiveru. Við vonumst svo til að fljótlega komi myndirnar sem hafa verið teknar af öllum frábæru og æðislegu stelpunum sem við erum svo heppin að vera með í láni þessa viku.
kveðja, Helga Helena forstöðukona