Leikjanámskeið í Kaldárseli
Leikjanámskeiðin í Kaldárseli eru frábær leikjanámskeið sem bjóða upp á svo miklu meira en hefðbundin leikjanámskeið. Rútuferðir eru frá KFUM og KFUK Holtavegi 28 kl 08:00 á hverjum morgni og rútan stoppar svo í Lækjarskóla í Hafnarfirði. Börnin geta komið inn á þeim stað sem þeim og foreldrum þeirra hentar betur. Á leikjanámskeiðinu fá börnin hollan og góðan heimilismat sem er eldaður frá grunni í eldhúsinu okkar. Hafragrautur, morgunkorn, brauð og álegg í morgunverð, ávaxtastund um miðjan morgun, heitur matur í hádeginu og drekkutími áður en farið er heim kl. 17:00, en foreldrar þurfa að sækja börnin í lok dags.
Á fimmtudeginum er boðið upp á gistinótt sem gerir þessi leikjanámskeið að frábærum valkosti fyrir krakka sem eru að stíga sín fyrstu skref í sumarbúðalífinu. Þá eru börnin áfram eins og í hefðbundnum sumarbúðaflokki, fá að leika fram eftir degi og eiga hefðbundinn veisludag. Veislukvöldverður er á borðum og svo er kvöldvaka með söng, leikjum og leikritum. Að lokum er hugleiðing yfir kvöldhressingu, kvöldbænir og svo fara allir í háttinn. Foringjar koma inn í svefnsali til krakkana lesa fyrir þau kvöldsögu og koma þeim í ró. Á föstudeginum þurfa foreldrar að vera búnir að sækja börnin fyrir kl 15.
Oftast vilja allir krakkar gista en eðlilega eru einhverjir sem vilja fara heim og koma aftur á föstudeginum. Ef eitthvað barn er ákveðið í því að fara heim á fimmtudegi þá þarf að sækja það á hefðbundnum tíma klukkan 17:00. Ekki er hægt að sækja eftir það nema í algjörum undantekningartilfellum. Ekki hika við að ræða þetta við forstöðumanneskju flokksins fyrir nánari upplýsingar.
Ef foreldrar vilja ræða við forstöðukonu/forstöðumann er hægt að hringja í síma 555 6211. Símatími er kl. 11:15-12:00 alla daga. Vinsamlega athugið að það getur verið erfitt að sækja börnin fyrr eða koma með þau seinna yfir daginn því oft eru allir í göngu eða ævintýraferð langt frá húsinu sem getur leitt af sér að foreldrar grípa í tómt þegar þeir birtast. Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi er best að ræða það við forstöðukonu/forstöðumann í símatíma daginn áður eða samdægurs ef annað gengur ekki.
Fréttir og myndir úr sumarbúðunum eru hér á heimasíðunni og birtast nánast daglega þegar sumarstarfið er í gangi.
Dæmi um dagskrá á leikjanámskeiði
08:30 Börnin koma með rútunni í Kaldársel og mæta beint í fánahyllingu.
08:35 Morgunverður (morgunkorn, hafragrautur, brauð og álegg)
09:00 Samverustund, fræðsla, föndur, spjall, söngur og bænir
10:30 Frjáls tími ýmsilegt í boði t.d. :
– Útileikir
– Sullað í ánni
– Búleikir og virki í hrauninu
– Íþróttaleikir í íþróttahúsi (eða úti á fótboltavelli)
– Föndur inni eða úti (fer eftir veðri)
– Spil
– ofl.
12:00 Hádegismatur t.d. Lasagna, kjötbollur eða fiskur
12:30 Frjáls stund og undirbúningur fyrir göngu.
13:00 Ganga t.d. Hellaferð, fjallganga eða ævintýraferð í Skógarlundinn
15:00 Drekkutími heima eða nesti í ævintýragöngu
16:00 Hópleikir og frjáls tími
17:00 Heimferð.
Farangur:
Börnin þurfa að hafa meðferðis, hlý föt, góða skó, regnfatnað, stígvél, húfu, vettlinga, auka sokka og auka föt (því oft dettur fólk í ánna í miklu stuði), hlýja sokka og/eða inniskó, litla bakpoka og vatnsbrúsa fyrir lengri gönguferðir, vasaljós fyrir hellaferðir. Allan útifatnað og aukaföt má koma með á mánudegi og geyma fram á föstudag.
Á fimmtudegi þarf svo að hafa með svefnpoka eða sæng, kodda, lak, náttföt, tannbursta, tannkrem og hrein föt fyrir föstudag. Á fimmtudagskvöldi er veislukvöld og þá mega börnin hafa með sér snyrtileg föt fyrir veisluna.