Áður en sótt er um starf hjá KFUM og KFUK á Íslandi er nauðsynlegt að umsækendur lesi það sem hér fer á eftir. Okkur hefur borist ábending um að umsóknarkerfið virki e.t.v. ekki í Chrome-vafranum frá Google.
Umsóknarfrestur er til 1. mars 2015. Þessi umsókn fer beint til stjórnar Kaldársels. Ef áhugi er á að sækja um starf í fleiri en einum sumarbúðum KFUM og KFUK eða á leikjanámskeiðum þarf að senda inn sérstaka umsókn fyrir hverja og eina starfsstöð.
Stjórnir og starfsfólk KFUM og KFUK á Íslandi líta svo á að þeir sem senda inn umsóknir hafi kynnt sér þau skilyrði sem umsækendur þurfa að uppfylla og samþykki að sækja tilskilin námskeið í apríl, maí og byrjun júní.
Sumarstarf KFUM og KFUK
Sumarstarf KFUM og KFUK tekur á móti allt að 3000 börnum og unglingum á hverju sumri. Starfið á sér langa sögu og byggir á ákveðinni hefð. Með árunum hefur starfsemi sumarbúðanna aukist svo að ekki er lengur hægt að treysta á sjálfboðavinnu eina og farið er greiða starfsfólki sumarbúðanna laun. Ennþá eru sumarbúðirnar reknar af sjálfboðaliðum í stjórnum og velunnarar starfsins leggja á sig mikla sjálfboðavinnu.
Markmið
Markmið sumarstarfsins er að ná til barna og unglinga með fagnaðarerindið um Jesú Krist. Starfið er því hugsjónastarf. KFUM og KFUK vilja að börnunum líði vel, finni til öryggis, skemmti sér og taki þátt í heilbrigðu og spennandi starfi. Sá sem sækir um starf hjá félögunum verður að geta tekið undir þessi markmið og vilja starfa með þau að leiðarljósi.
Að starfa í sumarbúðum
Að starfa í sumarbúðum og á leikjanámskeiðum gerir miklar kröfur til starfsmanna. Verkefnin eru misjöfn og margvísleg en hafa öll sama markmið og eru öll jafn mikilvæg. Góð samvinna starfsmanna er lykilatriði í velheppnaðri sumardvöl barns.
Starfsmaður í sumarbúðum verður að vera tilbúinn til að leggja mjög hart að sér og vinna langan vinnudag. Vinnudagur hefst með því að börnin eru vakin og honum lýkur ekki fyrr en börnin eru sofnuð. Eftir það geta einnig komið upp erindi sem þarf að sinna. Reynt er að skipuleggja starfið þannig að álag dreifist á starfsmenn og tími gefist til hvíldar inn á milli. Vakin er athygli á því að sumarbúðirnar eru reyklausir vinnustaðir og öll neysla áfengis og annarra vímuefna er óheimil í sumarbúðum KFUM og KFUK á Íslandi.
Þegar valið stendur á milli tveggja jafn hæfra einstaklinga, nýtur sá forgangs sem tekur virkan þátt sem leiðtogi í vetrarstarfi KFUM og KFUK.
Umsækjendur sem orðnir eru 18 ára og eldri ganga að öðru jöfnu fyrir um störf í sumarbúðunum. Samkvæmt lögum telst aðeins sá starfsmaður sem orðinn er fullra 18 ára fullgildur starfsmaður.
ATHUGIÐ
Við ráðningu þarf viðkomandi starfsmaður að samþykkja eftirfarandi málsgrein:
„Með vísan til 36 gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 10. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007 og reglugerðar um Sakaskrá ríkisins nr. 569/1999 gef ég leyfi mitt til þess að; framkvæmdastjóri eða fulltrúi hans innan KFUM og KFUK á Íslandi, undir þagnaskyldu megi afla upplýsinga hjá sakaskrá ríkisins og eða málaskrá lögreglunnar um það hvort ég hafi hlotið dóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga og eða dóm vegna brota á ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 án tillits til þess hve langt er liðið frá uppkvaðningu dóms eða afplánunar refsingar“.
Ráðning tekur ekki gildi fyrr en Sakaskrá ríkisins hefur fengið til skoðunar og skilað umsögn um beiðni um upplýsingar úr sakaskrá frá umsækjanda.
Ath. Beiðni til Sakaskrár fer af stað í ráðningarferli (ekki umsóknarferli).
Starfsmannanámskeið
Þeir umsækjendur sem fá vinnu samþykkja að sækja námskeið fyrir starfsfólk sumarbúða. Hér er um að ræða eftirfarandi námskeið:
Verndum þau – námskeið um vanrækslu og ofbeldi gegn börnum (Fjórar dagsetningar í boði en þess er krafist að námskeiðið sé sótt á tveggja ára fresti)
Verndum þau. 21. jan. kl. 19:00 – 22:00
Verndum þau. 17. feb. kl. 17:00 – 20:00
Verndum þau. 18. mars kl. 17:00 – 22:00
Verndum þau. 20. apríl kl. 19:00 – 22:00
Sjálfboðaliðanámskeið 15 – 17 ára á Holtavegi: 20. maí – kl. 17:00 – 21:00
Forstöðumannanámskeið á Holtavegi: 21. maí kl. 17:00 – 21:00
Starfsmannanámskeið sumarbúðanna 2015 haldið í Vatnaskógi dagana 1. og 2. júní. Brottför frá Holtavegi 1. júní kl. 8.30 og komið heim 2. júní kl. 21.30.
Námskeiðin eru nauðsynleg forsenda þess að starfa í sumarbúðum KFUM og KFUK. Fyrir þá sem hafa áður starfað í sumarbúðum KFUM og KFUK er mikilvægt að sækja slík námskeið árlega.
Umsóknarfrestur 2015 er liðinn.