Já það má með sanni segja að mikið fjör hafi verið á afmælishátíð Kaldársels í dag. Upp undir 300 manns lögðu leið sína í Selið okkar og nutu þess að eiga góða stund saman í tilefni 90 ára afmælisins. Hamborgarar og pylsur runnu af grillinu í glaðværa maga og á eftir fylgdi dýrindis súkkulaðiterta og grillaðir sykurpúðar. Börn og fullorðnir fengu andlitsmálningu, hoppuðu í hoppukastölum, tóku þátt í drullukökukeppni, happadrætti, keyrðu um á kassabílum, sulluðu í ánni og nutu þess að hlusta á skemmtiatriði í boði Ómars Ragnarsonar, Elínar Sifjar og partýstjórans Ásgeirs Páls að ógleymdum starfsmönnum sumarbúðanna.

Kaldársel hlaut ýmsar fallegar gjafir í dag, íslenska fánann frá Skógarmönnum, áletraðan silfurplatta frá KFUM og KFUK á Íslandi, bunka af Nýja Testamentum frá Gideonfélaginu, veglega bókagjöf frá Sigurbirni Þorkelssyni, blómvönd frá Ölveri og fyrr í vikunni fengum við gullfallega útsaumaða mynd með ritningarversi frá Stínu Gísladóttur. Auk þess bárust gjafir í afmælissöfnunina bæði í formi styrks, happdrættismiða kaupa og í gegnum skemmtilegt uppboð á tilfallandi verkefnum í Kaldárseli – í allt komu í söfnunina 67.810 krónur. Þar ofan á bætist að Olís/Rekstarland gaf okkur 50.000 krónur í sjóðinn í vikunni og lánuðu okkur þrjú grill til að grilla ofan í mannskapinn. Við í stjórn Kaldársels og starfsmannahópnum eru afskaplega þakklát fyrir þessar dásamlegu gjafir sem okkur hafa borist.

Að auki hlutum við ýmsa styrki í formi happadrættisvinninga og veitinga fyrir hátíðina og ber þar að nefna eftirfarandi aðila:
Kjötsmiðjan
Myllan,
Zo-on
Hress
Kaffitár
Hamborgarabúllan
Olís Rekstarland
Kári Kolbeinsson ljósmyndari (sem gaf okkur myndina á flottu tertunum)
Prentagram
Jako-sport
DB hljóðkerfi lánaði okkur allan tækjabúnað
Netsöfnun.is lánaði okkur sendibíl og gaf okkur ýmsan varning.

Fjöldinn allur af fólki kom og aðstoðaði okkur við að gera daginn eins og góðan og hægt var og erum við afskaplega þakklát öllum sem lögðu hönd á plóginn. Hjartans þakkir fyrir daginn.
Stjórn sumarbúðanna í Kaldárseli.
2015-06-28 16.08.15 2015-06-28 16.04.14 2015-06-28 16.33.19-1