Stelpurnar í Kaldárseli eru sannarlega í stuði. Hjá okkur hefur verið mjög gaman í dag og í gær og sjáum við foringjarnir fram á dásamlega viku.

Stelpurnar mættu hressar í gær og fóru beint í fánahyllingu og svo inn í matsal þar sem foringjarnir kynntu sig fyrir þeim og við tókum smá tíma í að læra um svæðið og þær fáu reglur sem við höfum hér.
Regla 1: Hlusta þegar verið er að tala við okkur
Regla 2: Allir eru vinir i Kaldárseli
Regla 3: Aldrei fara einar út í hraunið.

Þetta eru helstu reglurnar okkar og þeim hefur verið fylgt vel.

Í gær fóru stelpurnar í ævintýraferð í Kaldárselshella þar sem Sleikjódísin hafði dreift um fallegum og bragðgóðum sleikjum og stelpurnar leituðu þá uppi og allir fengu sleikjó. Þar var svo farið í leiki og svo komið heim í hús þar sem biðu nýbakaðar bollur og sjónvarpskaka.

Í staðinn fyrir hinn hefðbundna frjálsa tíma höfum við í boði nokkur tilboð sem stelpurnar geta valið á milli. Vinsælustu tilboðin hafa verið að leika í Kaldá, smíðavöllurinn og vinabandagerð. Einnig hafa verið söngsmiðjur, spilastundir og listasmiðjan opin.

Stelpurnar hérna eru klárlega snillingar og gleði og vinátta einkenna hópinn. Stöku sinnum hafa einstaklingar reiðst eða ekki viljað taka þátt í því sem er í boði en fólk er alltaf fljótt að jafna sig og enginn hefur verið ósáttur lengi. Enda er hér afar reynslumikið starfsfólk sem er ýmsu vant.

Hér vita stelpurnar allar að ef þeim líður illa í hópnum og þurfa pásu, einhvern til að tala við eða eitthvað sem er að plaga þær þá þurfa þær bara að láta vita og við gerum okkar allra besta til að koma til móts við þær. Í gær vorum við að ræða einmitt þetta og ég sagði við þær „Ef ykkur vantar eitthvað þá þurfið þið bara að spyrja okkur“ þær voru snöggar til og tilkynntu mér að þeim vantaði sko milljón krónur! Ég viðurkenndi að ég gæti líklega ekki komið til móts við slíkar þarfir. Mikið var hlegið en skilaboðin voru skýr, talið við okkur og við reynum okkar besta til að hjálpa.

Sökum þess hve nettengingin er slöpp hér í Kaldárseli þá erum við mikið að nota instagram síðuna okkar til að senda inn myndir – endilega kíkið á okkur fylgist með okkur þar.
https://instagram.com/kaldarsel

En í lok viku, ef ekki fyrr koma myndir inn á flickr síðuna okkar. Inn á hana eru tenglar sem hægt er að smella á hér á síðunni.

Í dag er stefnt á lengri ævintýraferð upp í Valaból með nesti og kósýheit.

Með bestu kveðju
Anna Arnardóttir
Forstöðukona