Hér hefur aldeilis verið gaman í vikunni. Við starfsfólkið erum sammála um að þessar stelpur eru stórkostlegar. Þvílíkir gullmolar og snillingar á allan hátt. Ennþá er vinsælast að smíða og leika við ánna. Reyndar er búið að smíða svo mikið að allir naglarnir okkar eru búnir og búið að hringja eftir fleirum. Einn stjórnarmeðlimur er á leiðinni uppeftir til okkar í dag með fullt af nöglum svo að hægt sé að halda áfram.
Í gær fóru allir í langa göngu og var tekið með nesti og borðað út í fallegri náttúrunni hér við Helgafell. Áður en lagt var af stað í þessa ævintýraferð voru flestar harðákveðnar í því að þær ætluðu sko ekki með nema einhver myndi halda á þeim! En af stað lölluðu þær og eftir smá stund voru allir kátir á labbi í góða veðrinu. Stelpurnar voru rosalega duglegar og þegar þær komu heim aftur var þeim verðlaunað með að hafa frjálsan tíma þar sem þær máttu velja hvað þær vildu gera. Nokkrar fóru út að leika, aðrar settust inn að spila en flestar sátu bara saman í kósýheitum og spjölluðu saman, dunduðu sér við puttaprjón og við opnuðum hárgreiðslustofu. Þær sem fóru út skelltu sér í gott vatnsstríð, komu svo kaldar inn og fóru í sturtu áður en þær settust með á hárgreiðslustofuna.

Eftir kvöldmatinn var farið upp á kvöldvöku þar sem Rakel Björg Kristjónsdóttir kom að heimsækja okkur. Rakel var foringi í Kaldárseli nokkur sumur fyrir ekki svo löngu en hefur dvalið síðstliðið hálft árið á Nýja Sjálandi þar sem hún á fjölskyldu. Hún kenndi stelpunum að syngja nokkur lög á Maori tungumálinu sem aðeins örfáir í heiminum skilja. Þetta sló alveg í gegn enda var þetta virkilega gaman. Eftir kvöldvökuna var salurinn fylltur af dýnum og allir komu upp í náttfötum með svefnpokana sína eða sængur og við horfðum á bíómyndina The Princess Bride og borðuðum popp og fengum djús með.

Þar sem allir voru svo þreyttir þegar farið var að vekja í gærmorgun var ákveðið að leyfa fólki að sofa aðeins lengur í dag sem var afar vel séð hjá flestum af stelpunum. Þær sem vöknuðu fyrr gátu farið upp í setustofu að lesa eða farið og fengið sér morgunverð. Þetta var bar virkilega kósý morgunn.

Í gær vorum við að læra um að Guð skapaði okkur og elskar okkur eins og við erum. Við erum fullkomnar í hans augum. Svo fórum við að velta fyrir okkur hvað einkenndi góðan vin, því stelpurnar hafa aðeins verið að tala um hér að þær eigi ekki mikið af góðum vinum heima fyrir. Stelpurnar komu með fullt af staðreyndum um hvernig góður vinur ætti að vera og svo ræddum við um það að ef að við viljum að vinurinn sé svona fyrir okkur þá verðum við líka að vera þannig vinir sjálfar. Núna erum við að æfa okkur að vera góðar vinkonur og það gengur afar vel – enda dásamlegar þessar stelpur. Í dag spáðum við svo í þakklætið og fórum yfir helgisögnina um Þakkarkörfuna þar sem englarnir tveir flögra um heiminn og safna bænum. Annar safnar fyrirbænum og hinn safnar þakkarbænum. Sá fyrri þarf að fara og tæma aftur og aftur en sá seinni fékk ekki nema botnfylli allan daginn. Við töluðum líka um að þegar okkur líður illa og finnst dagurinn hafa verið slæmur þá sé gott að hugsa til þess hvort það sé eitthvað sem við getum þakkað fyrir. Oftast getum við fundið eitthvað og þá fer okkur strax að líða örlítið betur. Við fylltum því þakkarkörfuna og bænakörfuna af bænum og þökkum sem við ætlum svo að brenna á varðeldi í kvöld úti í hrauni og senda þær þannig til Guðs.

Það er því nóg að gera hjá okkur og rosalega gaman. Ég minni aftur á instagram síðuna okkar
https://instagram.com/kaldarsel/
Þ
ar birtast myndir frá starfinu jafnt og þétt yfir daginn. Einn daginn koma þær svo inn á flickr síðuna okkar en ég er ekki að sjá að það gerist alveg strax þar sem það virðist vera einhver sérviska í nettengingunni okkar og hún virkar bara þegar henni hentar og þá yfirleitt afskaplega hægt.

En þar sem við erum í þakklætinu í dag þá erum við starfsmennirnir hér sérstaklega þakklát í dag fyrir að fá að hafa þessar dásamlegu stelpur hér hjá okkur, fyrir góða veðrið og fyrir skemmtilegan starfsanda.
Kveðja
Anna Arnardóttir
Forstöðukona