Já það var svo sannarlega gaman hjá okkur í gær. Veðrið lék við okkur svo við vorum úti í leikjum megnið af deginum. Færðum svo kvöldvökuna út þar sem við kveiktum lítinn varðeld, grilluðum sykurpúða, sungum, dönsuðum, fórum í ýmsa hópleiki og dönsuðum ennþá meira í hrauninu. Skátinn okkar hann Egill sem er að starfa með okku í þessari viku stóð uppá kletti og lék mennskt loftnet til að geta streymt tónlist af netinu úr símanum sínum í gegnum flottu hátalarana svo allir gætu dansað af lífs og sálar kröftum.
Þetta var einhver sú skemmtilegasta kvöldvaka sem undirrituð hefur átt hér í Kaldárseli. Þegar eldurinn hafði étið allt sem honum var boðið og bara voru eftir smá glæður fórum við yfir á fótboltavöllinn okkar. Þar settumst við saman niður í hring, báðum kvöldbænirnar okkar og sungum kvöldsönginn. Að því loknu fengu þeir sem vildu að halda áfram í leikjum og aðrir fóru inn að sofa – en allir sem vildu, fengu að tannbursta sig í ánni fyrir svefninn.

Í kvöldbæninni var hermibæn sem virkar þannig að foringi biður eina og eina línu í einu og stelpurnar hafa línuna upp eftir foringjanum. Hluti úr bæninni í gær var á þessa leið:
Anna: „Takk fyrir þennan dásamlega dag“
Stelpur: „Takk fyrir þennan DÁSAMLEGA, DÁSAMLEGA, STÓRKOSTLEGA dag!“
Þetta meira en margt annað segir okkur hvað þessi dagur var virklega meiriháttar. Myndirnar á Instagramminu okkar https://instagram.com/kaldarsel/ segja líka alveg sína sögu.

Dagurinn í dag byrjar jafn vel. Sólin skín, allir eru komnir út að smíða og stefnan er tekin á ævintýraferð strax eftir hádegið þar sem stelpurnar þurfa að leysa ákveðin verkefni til að finna nestið sitt.

Í kvöld verður svo veislukvöldið okkar og þá dressum við okkur upp og höldum partý. Bæði stelpur og starfsmenn eru pínu svekkt yfir að vikan sé að hverfa frá okkur því þetta er búið að vera svo dásamlega gaman og gleðin er sko hér við völd. Þó voru nokkrar sem viðurkenndu áðan að það yrði gaman að fá að fara aftur i tölvuna og símann sinn.

Bestu kveðjur úr Kaldárseli
Anna Arnardóttir
Forstöðukona

 

IMG_20150708_215929580 IMG_20150708_205956 IMG_20150708_210234