Nú þegar þetta er skrifað er annar dagur að kveldi kominn í Kaldárselinu góða. Það gleymdist í síðustu frétt að minnast á það, en Kaldársel átti afmæli síðastliðinn sunnudag, 25. júní, en þá voru komin 92 ár síðan sumarstarf hófst í Kaldárseli, næstelstu sumarbúðum KFUM & KFUK á Íslandi.
Fyrsta nóttin gekk vel og örfáir krakkana vöknuðu dálítið snemma og fengu þá að lesa aðeins og/eða spila þar til að við fórum öll á fætur um klukkan hálf níu.
Hefðbundinn dagur hér í dvalarflokkum Kaldársels byrjar á því að við vöknum um hálf níu, komum okkur á fætur og förum síðan í morgunmat klukkan níu. Eftir það tekur við morgunstund og síðan frjáls tími þar sem er boðið upp á einhverja dagskrá. Í dag vorum við með ólympíufáranleika þar sem að þau fengu að spreyta sig í keppnum eins og broskeppni, jafnvægiskeppni, jötunkeppni, stígvélaspark og stangarslepp. Eftir hádegismat förum við síðan í göngur eða ævintýraleiki og út af rigningunni ákváðum við að ganga yfir í Kaldársels hellana sem eru nálægir. Krakkarnir gátu dundað sér við að skoðað hina og þessa hella sem þar eru, en þeir eru margir og mjög misstórir. Það er skemmtilegt að segja frá því að sögur herma að Kaldársels hellarnir voru notaðir sem eins konar fjárhús forðum daga hér á Íslandi. Hvort að það sé satt eður ei það veit ég hins vegar ekki. Eftir hellalskoðunina héldum við aftur upp í Kaldársel þar sem að við fengum síðdegishressingu þar sem að var boðið upp á dýrindis kanilsnúða og bananabrauð. Eftir kaffitímann var síðan frjáls dagskrá en það birti yfir deginum svo að krakkarnir nutu sín í ánni, við smíðar og við hárgreiðslugerð. Við borðum síðan kvöldmat um kl. 18:30 og eftir það var frjáls dagskrá fram að kvöldvöku sem hófst kl. 20:30.
Á kvöldvökunni fengum við að njóta þess að sjá fleiri skemmtiatriði frá börnunum og má sjá einhverjar myndir frá skemmtiatriðinu á myndasíðunni okkar. Yfirleitt fáum við okkur síðan kvöldhressingu beint eftir kvöldvöku áður en við förum að hátta, en í kvöld skelltum við okkur í náttfatapartý eftirá þar sem að við horfðum saman á fyrstu myndina um töfrastrákinn Harry Potter og fengum poppkorn. Þetta er góður og skemmtilegur hópur og forréttindi að fá að eyða þessari viku með þeim. Netsambandið er því miður misgott hjá okkur í selinu, en við vonum að við náum líka að setja inn fleiri myndir á netið sem fyrst.
Hér er myndasíðan okkar:
https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157682790456693
Fyrir hönd Kaldársels,
Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, forstöðumaður.