Þá er dvalarflokkur Kaldársels þetta sumarið hafinn og fyrsti dagur að kveldi kominn þegar þetta er skrifað. Þetta er skemmtilegur og orkumikill hópur, 24 stelpur og 17 strákar, og við erum mjög ánægð með daginn í dag og hlökkum til vikunnar framundan. Við byrjuðum daginn á því að fara í könnunarleiðangur um staðinn og krakkarnir voru fljótir að finna hvað staðurinn hefur upp á skemmtilega hluti að bjóða. Við fengum okkur síðan grjónagraut í hádegismat, áður en við skelltum okkur í göngu upp á Sandfell og vorum heppinn með útsýnið þar sem að við sáum vel til Hafnarfjarðar, Reykjavíkur og alls svæðisins í kring. Þeir skarpeygðustu sáu meira að segja Hallgrímskirkju og Perluna.

Eftir síðdegishressinguna var boðið upp á að margvíslega dagskrá. Það var smíðað, leitað að hellum/virkjum/búum í hrauninu hér í kring, sumir fóru aðeins að busla í Kaldá og aðrir nutu sín við vinabandagerð sem og í íþróttasalnum. Á kvöldvökunni fengum við frábær skemmtiatriði frá krökkunum og hlökkum til að sjá skemmtiatriði krakkanna næstu kvöld.

Hér er hægt skoða myndir:
https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157682790456693

Fyrir hönd Kaldársels,

Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson