Flokkurinn byrjaði vel þar sem fullur flokkur af hressum og kátum krökkum mættu í Kaldársel. Þegar mætt var á staðin var börnunum úthlutað herbergi og allir fóru strax í að koma sér fyrir og skoða staðinn. Í hádegismat var boðið uppá pasta sem rann vel ofan í börnin. Eftir hádegismat var farið í göngu í Kúadal en þar var farið í leiki og borðað kex í lautinni. Eftir göngu fengu börnin frjálsan tíma þar sem í boði var að búa til vinabönd, smíða báta og fara í skotbolta og aðra leiki í íþróttahúsinu. Í kvöldmat voru kjúklingaleggir og franskar og voru börnin enn og aftur dugleg að borða. Mikil spenna var enn í hópnum svo eftir kvöldmatinn var farið í hetjugöngu uppá Sandfell en þar er dásamlegt útsýni í allar áttir. Þegar heim var komið var kvöldvaka þar sem börnin settu upp leikrit, sungu og hlustuðu á sögu. Allir fóru svo sáttir og glaðir að sofa eftir að hafa fengið góða kvöldhressingu. Nóttin var þó heldur erfiðari en gengur og gerist í sumarbúðunum þar sem brunabjallan fór í gang um tvö leitið og vakti alla í húsinu. Sem betur fer var enginn eldur á staðnum heldur olli bilun í reykskynjara því að kerfið fór af stað. Eftir hamaganginn fóru börnin aftur að sofa og voru flestir sofnaðir aftur um þrjú í nótt. Tæknimenn frá Securitas hafa verið kallaðir út til að yfirfara kerfið svo vonandi gerist þetta ekki aftur.

-Monika Jónsdóttir
Forstöðukona