Krakkarnir vöknuðu hress og kát um átta en fljótlega fór þreyta eftir ævintýri næturinnar að segja til sín svo ákveðið var að hafa rólegan morgun og var ekki morgunmatur fyrr en níu. Eftir morgunmat var biblíulestur þar sem sögð var sagan um Örkina hans Nóa og sungið saman nokkur skemmtileg lög. Við tók frjáls tími þar sem meðal annars var boðið uppá föndur, fótboltaspil og leiki í íþróttasalnum. Í hádegismat var hin klassíski sumarbúðaréttur ávaxtasúrmjólk sem rann vel ofan krakkana sem alltaf eru dugleg að borða. Ganga dagsins var ekki af verri kantinum þar sem gengið var í Álfakirkju og síðan stoppað og skoðað Kaldaselshella. Smá rigning kom í göngunni en það virtist ekki skemma fyrir því krakkarnir skemmtu sér mjög vel í ferðinni! Í kaffinu var boðið uppá súkkulaðiköku í hátíðar tilefni þar sem Kaldársel fagnar 94 ára afmæli í dag, í tilefni dagsins var einnig sunginn afmælissöngurinn. Eftir kaffitímann var hæfileikakeppni þar sem börnin sýnu alla sína fjölbreyttu og flottu hæfileika. Í kvöldmatinn var fiskur í raspi með kartöflum og börnin borðuðu matinn af bestu lyst. Eftir kvöldmatinn var svo farið í íþróttahúsið þar sem við fórum öll saman í stopp dans og fleiri leiki. Síðan var haldin kvöldvaka með öllu tilheyrandi, leikriti frá krökkunum, söngvum og sögu frá foringja. Þegar krakkarnir héldu svo að dagurinn væri búinn var þeim heldur betur komið á óvart þegar tilkynnt var að það yrði náttfatapartý! Horft var á Aladdin og borðað popp. Krakkarnir fóru svo allir með bros á vör að sofa eftir góðan og annasaman dag.
-Monika Jónsdóttir Forstöðukona