Nú fer flokknum fljótlega að ljúka. Vikan er búin að vera viðburðarík og skemmtileg, hópurinn inniheldur fjöruga krakka sem eru bæði dugleg að borða og leika sér. Í gær var veisludagur, hann hófst eins og alla daga á morgunmat og síðan biblíulestri. Þá var fjallað um Biblíuna og sagt frá Jesú og lærisveinum hans . Við tók ævintýraleikur þar sem geimverur litu í heimsókn í Kaldársel og voru með okkur fram eftir degi. Krakkarnir brölluðu ýmislegt með geimverunum þau fóru meðal annars í spurningakeppni, jóga, matarsmökkun og leiki. Ævintýraleikurinn endaði á göngu í hrauninu þar sem börnin fengu sér nónhressingu. Þá kynntu þau geimverunum fyrir íslenskri matarhefð þar sem þau borðuðu skyr með bláberjum og ávöxtum. Eftir hressinguna var frjáls tími fram að kvöldmat þar sem í boði var að vaða, smíða og leika sér. Í kvöldmatinn var svo sumarbúðapítsa sem sló í gegn. Um kvöldið var svo veislukvöldvaka þar sem foringjar fóru á kostum með stórskemmtilegum og sprenghlægilegum leikritum. Þá var mikið sungið, hlegið og leikið en eins og ávallt endaði kvöldvakan á hugveku og kvöldsöng. Eftir geimveruævintýri dagsins var að sjálfsögðu borðað geimverufrostpinna í kvöldkaffi.

Veisludagurinn var svo sannalega ánægjulegur, hlýtt og gott veður og krakkarnir duglegir í að taka þátt í dagskránni og njóta þess sem staðurinn hefur uppá að bjóða. Lítið hefur verið um heimþrá en eðlilega hlakkar krökkunum til að knúsa fjölskylduna.

Í dag verður ekkert haldið aftur í fjörinu, krakkarnir fengu Weetos í morgunmat, héldu síðan í morgunstund. Nú eru þau að borða pylsur áður en þau halda af stað í síðustu göngu flokksins.

Ég vil minna foreldra á að sækja börnin á milli 14:30 og 15:00 þar sem sett hefur verið upp hlið sem takmarkar aðgengi að staðnum.

Takk fyrir vikuna,

Monika Jónsdóttir, forstöðukona