Nú er leikjanámskeið II að líða að lokum en það er óhætt að segja að mikil gleði ríki hér meðal baranna í Kaldárseli. Við höfum fengið ágætis veður í vikunni og nú er hlýtt og bjart en nokkur ský á lofti. Vikan er búin að vera viðburðarík og skemmtileg, hópurinn inniheldur fjöruga krakka sem eru bæði dugleg að borða og leika sér. Í þessari viku erum við búin að gera ýmislegt skemmtilegt enda er alltaf fjör í sumarbúðum. Á smíðasvæðinu er verið að byggja risastóran kofa og báta fyrir bátakeppni, síðan hafa krakkarnir föndrað, gert vinabönd, búið til kókoskúlur, vaðað og farið í ýmiskonar leiki bæði úti og inni. Við leggjum mikið upp úr því að skoða fallega umhverfið í kringum Kaldársel en í vikunni hafa börnin leikið í lautinni í Kúadal, notið veðurblíðu í Valabóli og skriðið í gegnum Hundrað-metra-hellinn.

Í gær var veisludagur og þá var heldur betur ævintýri á dagskrá Til okkar komu geimverur sem brölluðu margt sniðugt með krökkunum þar á meðal var farið í spurningakeppni, íþrótta-tasan, matarsmökkun, þrautir og leiki. Ævintýraleikurinn endar á göngu í hrauninu þar sem börnin fá sér nónhressingu og sleikjó. Dagurinn endaði svo á veislukvöldvöku þar sem foringjar fóru á kostum í sprenghlægilegum leikritum.

Já vikan hefur svo sannarlega verið ánægjuleg og viðburðarík. Ég vil minna foreldra á að sækja börnin á milli 14:30 og 15:00 þar sem sett hefur verið upp hlið sem takmarkar aðgengi að staðnum.

Takk fyrir vikuna,

Monika Jónsdóttir, forstöðukona