40 hressir krakkar lögðu af stað í Kaldársel í morgun þar sem þau skemmtu sér mjög vel í allan dag. Við komu fengu börnin morgunmat og fóru svo á morgunstund þar sem sungin voru lög og heyrðu krakkarnir sögu af tveimur sonum úr Biblíunni. Eftir morgunstundina var farið í skoðunarferð um svæðið og var svo frjáls tími þar sem þau fengu að fara í brennó í íþróttahúsinu, smíða á smíðaverkstæðinu, föndra og leika sér úti í hrauninu. Í hádeginu var svo boðið upp á grjónagraut og eftir matinn var farið í leiki í íþróttahúsinu. Gengið var að Álfakirkju þar sem sögð var saga af Jón spæjó og var mjög vinsælt að tína ber. Þegar komið var aftur upp í Kaldársel beið þeirra kaffi sem samanstóð af nýbökuðum bollum og súkkulaði köku. Eftir kaffið var svo aftur boðið upp á smíðasvæði, leiki í íþróttahúsi, leika sér í hrauni auk þess sem krakkarnir máttu vaða í ánni.