Tæplega 40 hressir krakkar komu í Kaldársel í gær. Hópurinn er skemmtilega samsettur af krökkum sem hafa komið áður í Kaldársel og nýjum krökkum, og kynjaskiptingin er u.þ.b. jöfn. Fyrst fengu þau smá skoðunarferð um húsið og útisvæðið, en hér er til dæmis hægt að vaða í ánni, leika með búdót í búum og virkjum í hrauninu, smíða á smíðavellinum, fara í fótbolta á fótboltavellinum, körfubolta eða skotbolta í íþróttahúsinu, þannig að allir ættu að finna sér eitthvað við sitt hæfi. Þegar við komum í Kaldársel hafði stytt upp og við fengum fínt veður restina af deginum. Svo var krökkunum úthlutað herbergjum. Allar stelpurnar eru saman í einu stóru herbergi, og strákarnir eru í þremur minni herbergjum. Allir vinir eru saman í herbergi og sitja saman í matsalnum.
Eftir hádegismat fengu krakkarnir vasaljós í gjöf frá Kaldárseli, en í tilefni þess að Kaldársel fagnar 95 ára afmæli sínu í næstu viku fá allir krakkar vasaljós í afmælisgjöf þegar þau koma í sumar. Svo gengum við saman að Kaldárselshellum sem eru hér nálægt, en þar eru fullt af hellum sem hægt er að skoða. Þar fórum við líka í ýmsa leiki saman.
Þegar við komum heim úr göngunni beið okkar drekkutími, sem börnin borðuðu vel enda svöng eftir útiveruna. Einn drengur átti afmæli í gær og starfsfólkið og krakkarnir sungu fyrir hann afmælissöng að hætti Kaldæinga. Eftir drekkutíma var í boði að vaða, smíða, leika í hrauninu og íþróttahúsið var opið. Eftir kvöldmat voru krakkarnir sendir í skemmtilegan ratleik um svæðið þar sem þau kynntust hvort öðru, svæðinu og félaginu, KFUM&K, betur. Ratleikurinn gekk vel og krakkarnir unnu vel saman. Svo var komið að kvöldvöku. Þar sungum við saman, hlustuðum á sögu og tveir hópar voru búnir að undirbúa atriði og sýndu leikrit, en allir munu fá tækifæri til þess að vera með atriði á kvöldvöku í flokknum. Þegar kvöldvakan var búin gátu þeir sem vildu fengið sér smá ávexti í kvöldhressingu áður en farið var að bursta tennurnar, pissa og hátta. Flestir völdu að bursta tennurnar úti í á sem var mjög skemmtilegt. Þegar allir voru háttaðir fóru foringjar inn í öll herbergin, enduðu daginn með krökkunum og sögðu sögur. Kvöldið gekk mjög vel, ró var komin í húsið um kl. 22 og flestir voru sofnaðir stuttu síðar. Öllum gekk vel að sofna, enda þreytt eftir viðburðarríkan dag.
Myndir frá deginum koma inn seinna í dag.
Hádegismatur: Fiskibollur, kartöflur, gúrka, paprika, tómatsósa og kokteilsósa.
Drekkutími: Brauð með kæfu og osti, epli og perur.
Kvöldmatur: Hakk og spaghetti, gúrka, paprika.
Kvöldhressing: Epli, perur, vatnsmelóna.
Kv. Hugrún