Í morgun voru krakkarnir spenntir að byrja daginn og það voru allir vaknaðir snemma. Í morgunmat var boðið upp á morgunkorn og hafragraut, en grauturinn er vinsæll hjá krökkunum og hann kláraðist upp til agna. Eftir morgunmat var farið á morgunstund þar sem við sungum saman og hlustuðum á fræðslu um sr. Friðrik Friðriksson, sem m.a. stofnaði KFUM&K og Kaldársel. Eftir morgunstund fóru krakkarnir út, smíðasvæðið var opið og hægt var að leika sér í hrauninu eða búa til vörðu sem verður notuð til þess að hjálpa okkur að vita hversu langt frá húsinu má fara. Seinna færðu þau sig svo inn í íþróttasal og upp að spila og kubba. Í hádeginu var boðið upp á grjónagraut og slátur og krakkarnir gerðu því góð skil.

Eftir hádegismat var haldið af stað í ævintýragöngu inn í Valaból. Í Valabóli er hægt að leika sér að klifra í klettunum, skoða Músahelli og fara í skotbolta. Við tókum með okkur nesti í ferðina og gátum því notið þess að vera úti að leika okkur í fínu veðri. Þegar við komum heim var sólin byrjuð að skína og því var í boði að taka þátt vatnafjöri. Þá mátti fara út í Kaldá í sundfötunum. Það var mikið fjör, en áin er köld og því var gott að fara í heita sturtu þegar fjörið kláraðist. Í kvöldmat var boðið upp á kjötbollur og kartöflumús.

Eftir kvöldmat var komið að næstu tveimur hópum að undirbúa atriði fyrir kvöldvökuna sem voru svo sýnd á kvöldvökunni. Kvöldvakan var með sama sniði og í gær, við sungum, horfðum á atriðin og hlustuðum á sögu. Eftir kvöldvökuna var í boði að fá sér smá kvöldsnarl áður en það var farið að hátta. Foringjarnir enduðu daginn aftur með krökkunum inn á herbergjum. Allir voru fljótir að sofna eftir viðburðarríkan dag, ró var komin í húsið um kl. 22 og flestir sofnaðir um hálftíma seinna.

Morgunmatur: Kornflex, Cheerios, Hafragrautur
Ávaxtastund: Banani, epli, perur
Hádegismatur: Grjónagrautur og slátur
Drekkutími: Samloka með osti, skinku eða kæfu, súkkulaði- og vanilukex
Kvöldmatur: Kjötbollur og kartöflumús
Kvöldkaffi: Vatnsmelóna, epli, appelsínur, perur og brauð með osti.

Myndir má finna inn á þessari slóð: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157714744822976/

Kv. Hugrún