Hæ, hó, jibbí jeij! Það er kominn 17. júní!

Í morgun þurfti að vekja flesta krakkana, sem sváfu vel eftir langan dag í gær. Í morgunmat beið þeirra hátíðarmorgunmatur í tilefni af 17. júní, weetos hafði bæst við morgunverðarúrvalið, öllum til mikillar gleði. Það var líka í boði að fá sér hefðbundið morgunkorn eða hafragraut og því borðuðu allir vel. Eftir morgunmat var morgunstund. Þar lærðum við að það er mikilvægt að þakka Guði fyrir það sem hann gerir fyrir okkur og svo skrifuðum við niður allt það sem við erum þakklát fyrir á miða og settum í sérstaka þakkarkörfu.

Eftir morgunstund var komið að Fáránleikum Kaldársels 2020! Í Fáránleikunum er keppt í alls konar mis furðulegum íþróttagreinum, eins og að hlaupa í kringum húsið og spýta rúsínu eins langt og maður getur. Veðrið lék við okkur í allan dag, sólin skein fyrri hluta dagsins og því voru allir krakkarnir úti eftir leikana. Það var aftur í boði að fara á sundfötunum í ána, smíðasvæðið var opið og frjáls leikur í hrauninu. Í hádegismat var boðið upp á kjúklingaleggi með kartöflum sem kláruðust upp til agna. Eftir mat var hægt að fá andlitsmálningu og svo héldum við af stað í skrúðgöngu að Álfakirkju, stórum kletti stutt frá Kaldárseli. Í Álfakirkju beið okkar fjallkona sem flutti fyrir okkur ljóð og svo var hægt að klifra og leika sér í klettunum.

Þegar við komum heim frá Álfakirkju beið okkar drekkutími. Í boði voru nýbakaðar bollur með osti og svo fengu allir sína kökusneið sem átti eftir að skreyta. Hvert borð fékk svo skál af kremi, m&m og hlaupböngsum og svo fengu allir fengu að skreyta sína kökusneið. Þetta gekk mjög vel og var mjög gaman. Eftir drekkutímann hélt fjörið áfram, og nú var komið að hæfileikasýningu flokksins. Margir krakkar tóku þátt, annað hvort einir eða fleiri saman og sýndu ýmsa hæfileika, eins og tónlist, leikrit, dans og fimleika. Krakkarnir stóðu sig mjög vel og voru flottir. Eftir hæfileikasýninguna tók við frjálst val. Góða veðrið var áfram nýtt í að vera úti, það var hægt að leika í hrauninu og gera vinabönd úti á palli. Aðrir voru inni í íþróttasal eða öðrum leik inni.

Í kvöldmat var boðið upp á steiktan fisk og franskar kartöflur. Svo fóru allar stelpurnar í sturtu (strákarnir fara í sturtu á morgun), og hinir léku sér í íþróttasalnum. Kvöldvakan var auðvitað á sínum stað þar sem við sungum, horfðum á leikrit og hlustuðum á sögu. Þegar kvöldvakan var að klárast var ekki komið að kvöldhressingu eins og venjulega, heldur voru foringjarnir búnir að kveikja varðeld úti í hrauni. Krakkarnir fylgdust svo með því þegar öllum þakkar- og bænarefnunum frá því um morguninn brunnu og fóru með reyknum upp til himna. Svo fengu allir stóran sykurpúða til þess að grilla, mjög gott. Svo voru ávextir í boði fyrir þá sem ennþá voru svangir fyrir svefninn. Það var aftur í boði að bursta tennurnar í ánni sem margir nýttu sér.

Þetta var mjög viðburðarríkur dagur og allir voru orðnir þreyttir þegar upp í rúm var komið og því fljótir að sofna. Mjög lítið hefur verið um heimþrá og dagskráin hefur almennt gengið vel og krakkarnir duglegir að taka þátt. Nú er bara einn heill dagur eftir áður en foreldrar koma og sækja börnin á föstudaginn sem er að sjálfsögðu stútfullur af dagskrá eins og hinir dagarnir. Ég vil benda á að á föstudaginn þarf að vera búið að sækja krakkana fyrir klukkan 15, og þá verða til sölu Kaldárselsbolir á 3000 kr. Einfaldast er að borga með seðlum en einnig er hægt að borga með millifærslu.

Morgunmatur: Weetos Kornflex, Cheerios, Hafragrautur
Hádegismatur: Kjúklingaleggir og kartöflur
Drekkutími: Heimabakaðar bollur með osti, súkkulaði kaka
Kvöldmatur: Steiktur fiskur og franskar
Kvöldkaffi: Sykurpúðar, epli, perur, vatnsmelóna

Myndir má finna inn á þessari slóð: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157714744822976/

Kv. Hugrún