Í morgun fengu krakkarnir að sofa aðeins lengur en vanalega. Eftir morgunmat var morgunstund þar sem við lærðum að Guði finnst við vera frábær alveg eins og við erum, í huga hans erum við nákvæmlega eins og við eigum að vera. Eftir söguna nefndu allir einn hlut sem gerir þau frábær. Eftir morgunstund fóru allir strákarnir í sturtu og boðið var upp á val.
Í hádegismat var jarðaberja- og vanilluskyr og brauð. Eftir mat fórum við í hellaferð í 90m hellinn. Við tókum með okkur nesti og borðuðum nestið ofan í hellinum. Veðrið var fínt þótt aðeins hafi blásið á okkur. Þegar við komum heim tók við smá frjáls tími og svo var boðið upp á heitt súkkulaði og kex. Á meðan krakkarnir gæddu sér á veitingunum kláraði Guðni framhaldssöguna sem hann hefur flutt í drekkutímunum í vikunni. Sagan er einstaklega skemmtileg þar sem krakkarnir fá að hafa áhrif á atburðarásina í sögunni. Eftir söguna var komið að bátakeppninni. Krakkarnir eru búnir að búa til báta á smíðasvæðinu og nú var komið að því að fá að prófa bátana í ánni. Það var líka í boði að leika úti í hrauninu eða í íþróttahúsinu.
Síðasta kvöldið í sumarbúðunum er kallað veislukvöld. Þá fara krakkarnir í sparifötin sín og svo er boðið upp á veislumat, pítsu. Pítsan rann ljúflega niður og krakkarnir borðuðu vel. Eftir kvöldmat var komið að sjálfri veislukvöldvökunni. Þá bregða foringjarnir sér í alls kyns hlutverk og sýndu fullt af leikritum sem slógu í gegn. Kvöldvakan endaði á ís og sögu um mikilvægi þess að fyrirgefa. Kvöldið var í lengri kantinum og krakkarnir fóru því aðeins seinna að sofa en hin kvöldin. Við munum þess vegna vekja þau seinna á morgun og vonum að þau nái að sofa þangað til.
Í dag verður morguninn með hefðbundnu sniði, og fyrir mat munum við klára að pakka. Það verður pylsuveisla og svo ætlum við í ævintýraferð í Kúadal, þar sem við ætlum í hermannaleik og búa til virki. Ég minni á að sækja krakkana fyrir klukkan 15, og þá verða til sölu Kaldárselsbolir á 3000 kr. Einfaldast er að borga með seðlum en einnig er hægt að borga með millifærslu. Þau hlakka mikið til að hitta ykkur, og við starfsfólkið þökkum kærlega fyrir lánið á þessum flottu og skemmtilegum krökkum 😊
Morgunmatur: Kornflex, Cheerios, Hafragrautur
Hádegismatur: Jarðaberja- og vanilluskyr, brauð
Drekkutími: Heimabakaðar bollur með osti, möffins
Kvöldmatur: Pítsa (margaríta, skinka, pepperóní)
Kvöldkaffi: Ís og ávextir
Myndir má finna inn á þessari slóð: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157714744822976/
Kv. Hugrún