Í gærmorgun kom rúta full af frábærum krökkum hingað í Kaldársel. Hér eru orkumiklir einstaklingar á ferð í bland við rólyndari týpur en öll eiga þau það sameiginlegt að vera einstaklega glöð, hjálpsöm og góð hvert við annað.
Það gengur ekki endilega vel að fá þögn þegar vantar að koma upplýsingum til skila því hér er bara svo mikil leik-gleði en með sniðugum aðferðum til að ná athyglinni tekst það nú samt á endanum. Hér hefur þó ekki orðið vart við stríðni eða leiðindi á nokkurn hátt. Persónulega finnst forstöðukonu það vera dásamleg blanda. Við starfsfólkið kunnum alveg aðferðir til að ná athygli og þolum vel læti og stuð – sérstaklega þegar einskær gleði býr að baki. Hér hjálpast allir að og njóta þess að vera saman. 

Mikill meirihluti hópsins er að koma hingað í annað, þriðja eða jafnvel fjórða sinn og þekkja sig vel hér og starfsmennirnir muna eftir þeim. Þau sem eru að koma í fyrsta sinn eru þó ekkert feimin við að hafa sig í frammi og við pössum vel uppá að enginn verði útundan. 

 

Í gær, eftir skyr og brauð í hádeginu, fóru allir í göngu í Kaldárselshella þar sem þeir voru skoðaðir og leikið við þá og í þeim. Þegar heim var komið var hér boðið upp á köku og brauð. Eftir drekkutímann var farið í Brennó, vinabandagerð, busla í ánni og nokkrir bátar smíðaðir á smíðasvæði. Í kvöldmat voru svo ljúffengar kjötbollur, kartöflumús, sósa og grænmeti. 

Eftir kvöldmat fóru allir í stórann ratleik og komu svo á kvöldvöku þar sem sungið var og farið á ljónaveiðar og mikið hlegið. Þá var komið að ávaxtastund og svo að bursta tennur (sumir kusu að gera það í ánni frekar en inni á baðherbergi – það er alltaf hressandi) og svo beint inn í rúm. Flestir sofnuðu hratt og sváfu eins og englar í alla nótt. Það var mjög lítið um heimþrá en ég er búin að tala við foreldra þeirra sem eitthvað áttu erfitt og vinn það algerlega í samráði við þau. Foreldrar/forráðamenn eru sérfræðingar í sínum börnum svo ég hika ekki við að fá ráðleggingar ef eitthvað kemur uppá. Ef ég hef ekki haft samband við þig þá er barnið þitt að njóta sín vel hérna og svaf eins og engill í alla nótt. (reyndar leystust öll heimþrárvandamál með mjög farsælum hætti).

Í morgun brá börnunum heldur í brún þegar þau voru vakin með jólatónlist, matsalurinn skreyttur með jólaljósum og foringjar í jólapeysum eða jólakjólum. Já hér eru jól í júní. Í dag er 23. júní sem foringjar hafa túlkað sem svo að sé þá þorláksjúní. Svo hér verður stuð í dag. 

Ég átti dásamlega stund með börnunum í morgun þar sem við vorum að ræða um sköpun Guðs og að við þurfum að hugsa vel um jörðina sem Guð gaf okkur. Hér eru margir krakkar sem eru mjög vísindalega þenkjandi (þegar ég segi “við vorum að ræða” þá er það ekkert samnefnari yfir að ég hafi verið að prédika yfir þeim, þau voru svo sannarlega til í umræður). Margir veltu fyrir sér þróun og vísindalegum kenningum um Mikla Hvell t.d. Við vorum sammála um að ekki þyrfti að trúa einu umfram annað því Biblían segir okkur að Guð skapaði en ekki hvernig hann skapaði. Var Guð kannski valdur af Mikla Hvelli? Þetta voru mjög skemmtilegar umræður sem fóru svo út í umhverfisvernd, snertum á covid faraldrinum og black lives matter – hvert sem spurningarnar leiddu okkur. Að endingu vorum við sammála um að við ætlum öll að gera okkar besta til að hugsa vel um jörðina sem Guð gaf okkur og virða hvert annað sama hvernig við erum á litin, hverju við trúum, hvernig við lítum út eða hvern við elskum.  – Þetta eru stórkostleg börn sem við erum með hérna þessa vikuna. 

Þegar þessi orð eru skrifuð er verið að kalla í hádegismat þar sem verður fiskréttur á boðstólum (ég er ekki búin að kíkja nægilega vel inn í eldhús í dag til að ég viti hvernig hann verður framreiddur) og svo verður stefnt í göngu út í skóg þar sem við ætlum að finna jólatré skreyta það og dansa í kringum það – hver veit nema einhver gægist til okkar úr fjöllunum. Lena foringi sýndi nokkrum í gær að í tengiliðum hennar i símanum er Askasleikir Leppalúðason sjálfur. Hún ætlar að reyna að hringja í hann á eftir og sjá hvort hann eða einn af bræðrum hans sé til í að kíkja á krakkana með smá jólagjafir í júní. 

 

Það er allt að gerast í Kaldárseli sko… 

 

…jæja færslan komst ekki inn strax svo ég held bara áfram. Hér var dýrindis steiktur fiskur, kartöflur og grænmeti. Börnin hér borða verulega vel – enda hraust með eindæmum.
Askasleikir stóð sig með prýði og sendi Skyrgám til okkar inn í Kúadal og gaf öllum börnunum pakka. Í pökkunum voru lítil vasaljós sem koma sér nú sérdeilis vel í næstu hellaferð. 

Þegar heim var komið komu undarlegar geimverur í heimsókn í drekkutímann. Þessar geimverur eiga enga jörð og voru því að hvetja börnin til að hugsa vel um sína jörð. Þær komu með skrýtið blátt geimverudjús sem var eiginlega svolítið svipað og krapið sem við fáum í Ísbúðinni. Meira að segja eiginlega kannski alveg 100% eins. 

En þær voru ekki einu gestirnir í drekkutímanum því svo kom hún Katrín til okkar og heiðraði Kaldársel með Grænfánanum. Kaldársel eru fyrstu sumarbúðirnar á landinu sem fá að flagga Grænfánanum. Þessu erum við mjög stolt af og Katrínu fannst frábært að spjalla við þessa flottu krakka og heyra hversu meðvituð þau voru um að vernda jörðina. Eina sem spillti aðeins þessari stóru stund var að geimverurnar höfðu gefið börnunum plaströr til að drekka geimverudrykkinn… en ákveðið var að safna þeim öllum saman í einn poka og koma þeim í endurvinnslu. 

 

Síðan hefur verið hér leikur og gleði. Buslað í ánni, brennó, vinabönd fléttuð, smíðasvæðið notað, fótboltaspilið í fullu fjöri. Aðrir völdu rólegri iðju og hér sat lítill bókaklúbbur og las sér til skemmtunar. 

Núna eru börnin að borða hakk og spagettí og svo verður farið beint á kvöldvöku.
Eftir kvöldvökuna og kvöldbænir ætlum við að halda náttfatapartý en þá verður farið í náttfötin og komið upp í kvöldvökusal með sængur og svefnpoka og horft á bíómynd tengda verkefnum dagsins. 

Myndir úr flokknum koma á morgun.

Forstöðukona

Anna Þórey