Hér hefur verið líf og fjör í morgun.
Eftir að hafa horft á hvernig mannfólkið fór með jörðina í framtíðarmyndinni um litla ruslavélmennið Wall-E fóru allir beint að sofa, enda fólk orðið þreytt.

Í morgun sváfum við örlítið lengur en venjulega og allir vöknuðu hressir og kátir og fóru í algeran rugl dag.

Byrjuðum á morgunmat og fórum svo beint í orkustund þar sem við sungum nokkur lög og lékum okkur. Síðan var farið í leik sem foringjarnir höfðu lært í útlenskum sumarbúðum þar sem krökkunum er skipt upp í hópa og hver hópur byggir sitt samfélag úr lego kubbum og hefur til þess 40 mínútur. Eftir það fóru þau í sendiferðir að heimsækja næstu ríki. Þá braust út stríð og þau fengu að heyra að hugasnlega væri verið að ráðast á þeirra samfélag heima. Flestir hópar fylltust af reiði og brutu niður þorpin sem þau voru að heimsækja. Einn hópurinn ákvað að brjóta ekki samfélagið sem þau voru í heimsókn hjá og fóru friðsamlega til baka til þess eins að finna sitt þorp eyðilagt af þeim sem þau höfðu kosið að hlýfa. Þá kom upp mikið samviskubit hjá þeim sem höfðu skemmt og merkilegt að sjá hvernig samskiptin fóru fram. Eftir á fengu þorpin tíma til að fara í enduruppbyggingu. Að endingu ræddum við um að það er erfiðara að byggja upp aftur eftir eyðileggingu heldur en að byggja upp frá grunni. Einnig ræddum við um að það er enginn sem segir að þú verðir að brjóta og ráðast á þegar þú fréttir að það gæti verið að einhver hafi ráðist á þitt. Við þurfum ekki að svara í sömu mynt og við erum alltaf þau sem ákveðum hvernig við bregðumst við og hvað við gerum. Þetta var verulega skemmtilegur leikur sem vakti upp miklar spegúleringar hjá þessum fróðleiksfúsu og kláru krökkum.

Þar næst var farið í kvöldmat (um hádegisbil). Í matinn var grjónagrautur og slátur. Bæði með og án laktósa.

Eftir kvöldmatinn var svo morgunstund, þar sem við sungum morgunsönginn og fórum með morgunbæn. Við hlustuðum á sögu um hana Júlíu úr bókinni Við Guð erum vinir eftir Kari Vinje. Þegar undirrituð ætlaði að hætta lestri og hleypa börnunum í hópleiki hófust upp hávær mótmæli svo þau fengu í gegn einn kafla í viðbót – mér til mikillar gleði.
Svo var farið í hópleiki í íþróttahúsinu þar sem enn var talsverð rigning úti.

Eftir drekkutímann var svo haldið Júróvísjón Partý. Það er mjög sérstakt partý hér í Kaldárseli sem óvanir myndu líklega ekki átta sig á hvað væri. Málið er að hér í Kaldárseli er engin hitaveita heldur erum við með heitavatns tank. Þegar kemur að því að senda 40 börn í sturtu er eins gott að hafa það mjög snöggt bað (eins og hjá Roy Rogers). Því er tekin æfing fyrir sturtuna og hver og einn fær akkurat 3 mínútur til að skola sig, sápa og skola aftur vel. Til að taka tíman þá eru spiluð Júróvísjón lög því þau eru öll um 3 mínútur. Hver og einn getur því sturtað sig í eitt lag. Þá ná allir að fara í heita sturtu áður en vatnið klárast.
Já krakkar mínir, ýmislegt sem fær nýjan tilgang í svona sumarbúðum.

Þá lét blessuð sólin sjá sig og rauk hér upp hitinn svo hér breyttist allt í góða baðströnd þar sem verið var að busla í ánni, lita úti á palli, leika sér í hrauninu og svo allt í einu öllum að óvörum braustu út svakalegt vatnsstríð. Hér komu því allir rennandi blautir inn til að skipta um föt og ná í sig hlýju yfir hádegismatnum (sem var á kvöldmatartíma). Í matinn voru kjúklingur og franskar, flestum til mikillar ánægju og var verulega vel borðað hér í kvöld.

Eftir matinn var lagt af stað í útilegu.
Foringjarnir fóru af stað með allan hópinn upp í dásamlegu lautina í Valabóli. Þar var tjaldað og grillaðir sykurpúðar. Þeir sem vildu fengu svo að gista í tjaldinu og/eða í manngerða hellinum sem þar er. Þeir sem ekki vildu gista úti komu til baka og fóru beint inn að sofa í sínum rúmum. Að sjálfsögðu er hluti foringjanna með í gistingu uppfrá og aðrir fylgdu með heimakæra hópnum hingað.

Forstöðukonan ákvað að ryfja upp gamla takta úr eldhúsinu og skellti í stóra afmælistertu fyrir Kaldársel því á morgun eru sumarbúðirnar 95 ára. Það verður því heldur flottur afmælis og veislu dagur hjá okkur þá. Við hlökkum mikið til.

Þar sem ekki var hægt að bjóða í veislu hér sökum Covid faraldurs og fleira þá er öllum boðið í veislu á Holtavegi 28, milli klukkan 14-17. Þar verður hlaðboð í boði fyrir litla upphæð. Sjá nánar á auglýsingu hér á síðunni í annarri frétt.

Með bestu kveðjum úr Kaldárseli
Anna Þórey Arnardóttir
Forstöðukona