Heil og sæl.

Við fengum 40 hressa og káta krakka hingað upp í Kaldársel í morgun. Það fyrsta sem er gert í öllum flokkum er að fara smá skoðunarferð um húsið og nánasta svæði, fara yfir reglur og raða í herbergi. Þegar því öllu var lokið fengu krakkarnir grjónagraut og lifrarpylsu í hádegismatinn.

Eftir hádegismatinn var farið í göngu að Álfakirkju. Flestir vildu ganga aðeins lengra með Guðna foringja að skoða gamlar bæjarrústir. Aðrir nutu sólarinnar með hinum foringjunum. Krakkarnir komu svo beint í kaffi og fengu brauð, djús og bananabrauð sem bakað var í morgun.

Veðrið lék við okkur í dag og eftir kaffi var frjáls tími. Mjög margir nýttu tímann í að vaða í ánni, binda vinabönd, teikna og spila fótbolta. Þrjú herbergi undirbjuggu leikrit fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmatinn fengum við hakk og spaghetti. Krakkarnir borðuðu flest mjög vel.

Það var mikið sungið og sprellað á kvöldvökunni. Við fengum auk þess að sjá þrjú skemmtileg leikrit í boði barnanna í Sléttuseli, Hellaseli og Fjallaseli. Eftir kvöldvökuna fengu börnin epli og appelsínur í kvöldkaffi. En þegar átti að fara að tilkynna hvaða foringi myndu sjá um að svæfa hvaða herbergi kom babb í bátinn. Allir foringjarnir voru týndir. Börnin voru því send út að leita að bænaforingjanum sínum. Það fundust sem betur fer allir að lokum og börnin gátu farið að græja sig í háttinn.

Dagurinn gekk í heild sinni vel og við hlökkum til morgundagsins.
Bestu kveðjur úr Kaldárseli,
Þóra forstöðukona.