Heil og sæl.

Börnin voru vakin klukkan 8:30 í morgun með jólalögum. Allt starfsfólkið var í jólapeysum og það mátti finna jólaskraut víðsvegar um húsið. Morgunmatur var hefðbundinn og á morgunstundinni lásum við jólaguðspjallið, ræddum um Jesú og æfðum okkur að fletta upp í Nýja testamentinu. Eftir morgunstundina var frjáls útivera, smíðasvæðið, búin í hrauninu og ýmislegt fleira.

Eftir hádegismatinn fórum við í göngu inn í Kúadal. Þar var dansað í kringum jólatréð, börnin fengu smá nesti og höfðu gaman. Í kaffitímanum var brauð og tvenns konar kökur.

Seinnipartinn er frjáls tími og þá var smíðasvæðið í boði, að vaða í ánni (það var foringi í vöðlum ofan í ánni allan tímann), vinabönd, lesa og leika inni í íþróttasal. Á þessum tímapunkti var aðeins farið að hvessa hjá okkur og aðeins farið að kólna.

Eftir kvöldmat vorum við með ævintýraleik úti. Börnin tóku flest þátt og þau klæddu sig bara vel. Nú var komið frekar mikið rok og rigning. Þau skemmtu sér samt vel við að leysa verkefnin. Þegar inn var komið var farið beint í matsalinn til að fá ávexti og heyra 3.hluta framhaldssögunnar hans Guðna foringja. Eftir það fóru þau að hátta, pissa og bursta og fóru svo inn á herbergin til að hlusta á sögurnar sem bænaforingjarnir eru að lesa.

Tíminn líður hratt þegar það er gaman og á morgun er fjórði og síðasti heili dagurinn okkar.

Við kveðjum héðan úr Kaldárseli,
Þóra forstöðukona.