Heil og sæl.

Það var mikið rok og rigning þegar börnin voru vakin í morgun. Í dag var veisludagur en hann er að mestu leyti hefðbundinn. Morgunmatur, biblíulestur, frjáls tími þar sem í boði var smíðaverkstæðið þar sem þrjár stúlkur létu veðrið ekki trufla sig og reyndu að klára kofann sinn, íþróttahúsið og spa á efri hæðinni. Það var pylsupasta í hádegismat.

Eftir hádegismatinn fengu allir hjálma og þau fóru í göngu í Kaldárselshella, sem eru rétt við hliðið inn að Kaldárseli. Gangan gekk mjög vel og allir komu sáttir til baka. Ráðskonan okkar hafði töfrað fram heitt kakó fyrir alla ásamt því að þau fengu brauð og kókoskúlur í kaffitímanum. Þeir sem ekki vildu heitt kakó fengu djús.

Eftir kaffi var í boði útivera – sem enginn nýtti sér, rólegheit á efri hæðinni, vinabönd, lestur og teikna. Salurinn var svo opnaður líka. Upp úr klukkan 17 fóru allir í betri fötin fyrir veislukvöldmatinn, sem var pizza og djús.

Foringjarnir buðu upp á nokkur skemmtiatriði á kvöldvökunni og börnin fengu ís á meðan þau heyrðu stutta hugleiðingu. Eftir kvöldvökuna fóru börnin að græja sig í háttinn og bænaforingjarnir fóru inn á herbergi til að lesa kvöldsöguna og koma þeim í ró.

Bestu kveðjur héðan úr Kaldárseli,
Þóra forstöðukona.