24 spennt börn brunuðu í Kaldársel 16. júní í fyrsta dvalarflokk sumarsins. Við byrjuðum á að koma okkur vel fyrir á staðnum, öll fundu sér koju, snaga í fatahenginu og kynntust hvort öðru og reglum staðarins. Í hádegismat var kjötsúpa og brauð og svo var farið út í hópleiki. Úti var hlýtt og gott veður sem og nýttum við tækifærið og gengum í lautina í Valabóli með nesti og nutum þess að leika á svæðinu. Þegar heim var komið fengu börnin súkkulaðiköku. Eftir kaffi var frjáls tími þar sem börnin fengu að smíða, vaða í ánni og svo er alltaf vinsælt að föndra vinabönd. Í kvöldmat voru kjúklingaleggir og franskar. Síðan fórum við í útileiki og loks var kvöldvaka með leikriti frá stelpunum í Þúfuseli. Börnin fóru svo þreytt en glöð í háttinn.
Börnin vöknuðu svo hress og kát á 17. júní spennt fyrir nýjum degi. Eftir morgunmat fóru öll út á fánahyllingu sem ekki hefur verið hægt að framkvæma í nokkur ár en þökk sé Skógarmönnum erum við nú aftur með fánastöng. Síðan var morgunstund þar sem við veltum aðeins fyrir okkur lýðræði og einræði í samhengi við söguna um Daníel í ljónagryfjunni. Við sungum mikið bæði af nýjum og eldri lögum. Eftir morgunstund voru fáránleikar þar sem keppt er í fáránlegum íþróttum og svo kökuskreytingarkeppni og frjáls tími. Í hádegismat var skyr. Úti er rigning en nokkuð hlýtt og eru börnin á leið í 100 metra hellirinn. Eftir göngu borðum við fínu kökurnar og höfum hátíð í Selinu, blásum upp hoppukastala, bjóðum upp á andlitsmálningu og fánagerð.
Kærleikskveðjur úr Selinu,
Jóna Þórdís, forstöðukona