Dásamlegur hópur af börnum dvelja nú í Kaldárseli. Þau una sér vel í frjálsum leik, taka vel undir í söng og er mikil kyrrð yfir staðnum.

17.júní var haldin hátíðlega í Kaldárseli, við byrjuðum daginn á fánahyllingu og börnin kunna alveg nokkuð vel að meta gamlar hefðir, sumum fannst þetta smá skrítið en líka áhugavert. Þetta er mjög söngglaður hópur, þau syngja voða fallega og taka vel undir í öllum lögum. Nú höfum við bæði sungið gamla góða Kaldársels slagara í bland við þá nýju. Enn í vikunni hafa krakkarnir ásamt foringjum samið nýtt lag og texta sem er enn í vinnslu, kannski verður það tekið upp í lok vikunnar. Börnin eru heilt yfir mikið fyrir að skapa og mörg eyða löngum stundum við að föndra vinabönd. Í gær var kökuskreytingarkeppni og mikill metnaður lagður í hverja köku. Gaman að fylgjast með þeim skipta með sér verkum sem og kökunni í jafna bita.

Við gengum í 100 metra hellirinn og vörðum þar góðum tíma í að skoða hraunhellana. Það rigndi svolítið á okkur enn það rignir ekki í hellum ;). Eftir kaffitímann héldum við 17. júní hátíðarhöld innandyra. Við blésum upp hoppukastalann í íþróttahúsinu, tókum fram andlitsmálninguna og að sjálfsögðu efnivið í föndur. Í kvöldmat fengu þau gúllasrétt og kartöflumús. Eftir mat fórum við út í leiki og svo var kvöldvaka þar sem stelpurnar í Fjallaseli settu upp leikrit. Svo sendum við börnin frekar snemma í háttinn, ekki til þess að fara sofa heldur til að bjóða þeim í óvænt náttfatapartý. Þá gerðum við kósý í Hellaseli og horfðum á bíómynd og boðuðum popp. Börnin fóru svo þreytt en glöð í háttinn um 23 og voru flest frekar fljót að sofna. 

Í dag 18. júní vöknuðu svo öll hress og kát spennt fyrir nýjum ævintýrum. Við fengum okkur morgunmat og svo var fánahylling í rigningunni. Eftir hana var morgunstund þar sem við sungum okkar skemmtilegu söngva og sögð var sagan af Bartímeusi blinda. Við ræddum um hvernig Jesú mætti öllu fólki af kærleika og virðingu og hvernig við mannfólkið getum unnið eins og Jesú að því að hjálpa náunganum og gefa lífi þeirra tilgang. Síðan fórum við út í flöskuleikinn sem er einskonar túrbó útgáfa af fela hlut, verst er að nokkrar flöskur voru svo vel faldar að enn er ekki búið að finna þær… Síðan var frjáls tími þar sem meðal annars var í boði að búa til kókoskúlur, sem runnu nú reyndar strax ljúflega niður í maga barnanna. Í hádegismat var hakk og spagettí. Eftir hádegismat fengu krakkarnir tíma til að undirbúa sig fyrir hæfileikakeppni sem verður seinna í dag. Nú eru krakkarnir í Kúadal en þar er gott skjól fyrir rigningunni og mörg tækifæri til leiks. Spáð er sól og blíðu seinni partinn og stefnum við að því að nýta tækifærið og vaða í ánni ef úr því rætist.

Kærleikskveðjur úr Selinu,

Jóna Þórdís, forstöðukona