Í dag fengu börnin tækifæri á að kynnast öllu því sem Kaldársel hefur að bjóða innandyra enda rigndi mikið í dag. Eftir morgunstund fóru börnin inn í íþróttasal í nokkra leiki en síðan fengu börnin að leika í frjálsum leik innandyra sem utandyra. Margir völdu að spila fótbolta og körfubolta í íþróttasalnum á meðan aðrir dunduðu sér í að gera vinabönd, spila og lita. Smíðasvæðið var einnig opið fyrir börnin. Í hádegismatinn fengu börnin dýrindis lasagna og hvítlauksbrauð. Eftir hádegismatinn fóru að heyrast sögur um einhverjar geimverur sem höfðu skilið eftir bláan kassa í einum af Kaldárselhellunum og miklar vangaveltur fóru af stað. Voru þetta í alvörunni geimverur og af hverju voru þær að skilja einhvern kassa eftir hér í Kaldárseli??
Þegar allir höfðu klætt sig í góð hlífðarföt var haldið af stað í leit að þessum leyndardómsfyllta fjársjóði sem geimverurnar höfðu skilið eftir sig. Kassinn fannst svo eftir nokkra leit í stórum helli og þegar hann var opnaður kom í ljós að geimverurnar hefðu skilið eftir sig sykurpúða. Skrýtnar þessar geimverur…. Börnin fengu því að borða sykurpúða inn í helli, þar sem við sögðum draugasögur og prófuðum að sjá hvernig það væri að slökkva á öllum vasaljósunum.
Eftir þessa ævintýraför var haldið heim á leið í Kaldársel þar sem kaffið beið okkar, nýbakaðar bollur og marmarakaka.
Á morgun, fimmtudag, fá krakkarnir síðan tækifæri á því að gista eina nótt í selinu. Við minnum foreldra á að börnin eru sótt klukkan 15 á föstudeginum en ekki kl 17 eins hina dagana.
Takk fyrir skemmtilegan dag !