Nú er komið að lokum þriðja leikjanámskeiðs sumarsins og gaman að segja frá því að allt hefur gengið ljómandi vel. Börnin hafa tekið þátt í allskonar ævintýrum, vaðið og dottið í ána, byggt virki og bú, skriðið í hellum og gengið á hóla. Við höfum fengið gott veður allan tímann og veðrið því ekki komið í veg fyrir neina útiveru. Gengið var m.a. í Kúadal þar sem voru leikir og fjör. Við fórum líka í Kaldárselshella þar sem börnin fóru ofan í hella og hlustuðu á sögur. Þar voru þau mjög sannfærð sum um að sést hefði til refs, en lítið var um staðfestingu á því. Einnig var gengið að 100 manna helli, hann skoðaður og að Fosshelli, en í þeim síðarnenefnda var hlustað á lokakaflann í æsispennandi sögu um Jón Spæjó. Í gær var svo veisludagur, langur dagur sem margir voru mjög spenntir fyrir, því í lok hans var gisting fyrir flesta. Honum lauk með kvöldvöku með mörgum leikritum, miklum söng og hugvekju. Langflestum gekk mjög vel að sofna, enda mikið búið að ganga á yfir daginn.
Nú er runninn upp lokadagurinn. Margir vöknuðu snemma, enda spenningurinn mikill fyrir því sem framundan er. Nú er lokaundurbúningur fyrir bátakeppnina miklu sem fram fer síðar í dag. Bátarnir voru málaðir í gær og ekkert eftir nema lokaprófanir og endurbætur.
Ég vil minna á að nú þarf að sækja börnin milli 14:30-15:00, þennan lokadag, því hliðið verður ólæst á því bili.
Hér hefur verið gaman að vera þessa vikuna, skemmtileg og fjörug börn sem var gaman að kynnast og eyða góðum stundum með.
Takk kærlega fyrir vikuna,
Jóhann Pétur Herbertsson, forstöðumaður.